Fæðing afmælisprinsins þann 4.nóvember 2012
Ég fæddi litla strákinn minn að morgni afmælisdags míns þann 4.nóvember 2012 eftir nokkra bið. Þetta var sunnudagur og ég var gengin 42 vikur. Þar sem ég hafði frá upphafi áætlað að fæða barnið heima var ég búin að vera í sambandi við ljósmóðurina mína, hana Kristbjörgu, frá því um miðbik meðgöngunnar og hafði því mjög greiðan aðgang að henni á meðan á biðinni stóð. Ég vildi helst ekki láta setja mig í gang heldur leyfa barninu að koma þegar það var tilbúið í ferðalagið. Ég var mjög hraust og engir sérstakir meðgöngukvillar að hrjá mig þannig að við Kristbjörg vorum sammála um að það væri hið besta mál, en ég átti svo pantaðan tíma í monitor þarna á mánudeginum, daginn eftir að hann fæddist, til að ganga úr skugga um að barninu liði vel. Svo átti bara að gera plan upp frá því um framhaldið.
Biðin var ótrúlega auðveld að undanskildum einum degi, það var daginn eftir að ég var komin 41 viku, en dóttir mín hafði komið á 41 viku og því var ég einhvern veginn búin að ákveða að þetta barn kæmi þá líka og upplifði mikið spennufall og tók meðal annars mjög nett grátkast í Nóatúnsverslun því það ég ætlaði að kaupa var ekki til og var bara mjög leið allan þennan dag.
Daginn fyrir fæðinguna var ég farin að finna mikla spennu í kviðnum og kröftugri fyrirvaraverki en þangað til. Um eftirmiðdaginn tók ég eftir bleikri útferð og hringdi strax í Kristbjörgu til að spyrja hvort það væri eðlilegt, og hún var bara ánægð að heyra þetta, að leghálsinn væri bara að undirbúa sig. Þarna fann ég líka fyrir svona doðatilfinningu, eins og að það héngi ský yfir mér, og það var kunnuleg tilfinning frá því úr fyrstu fæðingunni minni. Ég leyfði mér því að vera örlítið vongóð um að þetta væri í vændum þegar ég fór í háttinn um kvöldið.
Ég rumskaði svo í nóttinni við almennilegan verk, en ákvað að bíða aðeins með að kíkja á klukkuna, ef þetta væri fyrir alvöru myndi annar verkur koma fljótlega, annars væri bara best að sofna aftur. Viti menn, þarna kom annar verkur, klukkan að verða hálf fimm, og svo aftur verkur 8 mínútum síðar. Ég fór á stjá, bara á klósettið og svona og þetta fór virkilega að segja til sín þannig að ég ýtti við eiginmanninum til að segja honum að tíminn væri kominn. Tengdaforeldrar mínir voru ræstir út til að sækja litlu 3 ára stelpuna okkar og þegar þau komu rétt rúmlega fimm var ég komin með mjög tíða verki og var ekki viðræðuhæf, alveg komin í minn heim. Það var mjög sætt að litla stelpan mín fann á sér að eitthvað öðruvísi var í gangi og kyssti mig margoft létt á andlitið til að kveðja mig. Ég var búin að hringja á Kristbjörgu sem var á leiðinni til okkar og Bjarni fór beint í að blása upp laugina og fylla hana af vatni. Á meðan fann ég minn stað í íbúðinni, settist í stól og tók á móti hverri öldu með djúpu hummi, leið ofsalega vel þar. Kristbjörg kom klukkan 6 og stuttu síðar fór ég ofan í laugina sem stóð á stofugólfinu okkar og það var mjög svo ljúft og ég náði að slaka vel á í smástund.
Þetta gerðist svo mjög hratt eftir það, og tók virkilega á á köflum. Ég meira að segja man eftir því að hugsa að þetta myndi ég alls ekki gera aftur, að ég hefði nú aldeilis fegrað minninguna af síðustu fæðingu! Þegar þetta varð erfitt fékk ég ómetanlegan stuðning frá Kristbjörgu og Bjarna. Tvisvar þegar mér fannst ég vera að missa móðinn sagði Kristbjörg eitthvað sem skipti sköpum, fyrst þegar var farið að ískra í röddinni á mér, sagði hún mér að fara aftur í djúpu tónana og það hjálpaði ótrúlega, en ég hafði haldið áfram að humma í hverri einustu hríð held ég. Seinna þegar ég var að missa tökin sagði hún ‚ekki vera hrædd‘ og þá náði ég aftur fókus. Flottast var rétt fyrir endasprettinn, og allt var einhvern veginn út um allt hjá mér, þegar hún tók ilkjarnaolíu (Frankincense) og setti í lófana á Bjarna og lét hann grípa í hendur mínar á ákveðinn hátt, þá náði ég jarðtengingu aftur og hugsaði ‚ég get þetta‘. Ég hélt svo í hendur hans þar til litli sonur okkar kom út í tveimur rembingum klukkan 8:10, þvílík dýrðarstund og besta afmælisgjöf sem hugsast getur.
Svo fórum við bara beint upp í rúmið okkar og lágum þar saman, ég og sonur minn, örugglega í þrjár klukkustundir áður en eitthvað var farið að vigta og skoða drenginn að ráði. Fylgjan kom hálftíma eftir fæðinguna vandkvæðalaust.
Það var svo gott að gera þetta svona heima í sínu hreiðri með manninum mínum og ljósmóður sem ég þekki og treysti. Ég valdi Kristbjörgu því hennar sýn höfðar sterkt til mín, að konan fær að ferðast í gegnum þetta ferli sem mest einsömul, að ljósmóðirin er þarna til stuðnings. Í fæðingunni mældi hún aldrei útvíkkun hjá mér, í einu skiptin sem hún þurfti að koma við mig var til að athuga með hjartslátt barnsins. Þetta var akkúrat eins og ég vildi hafa það, ég fékk að vera kona að fæða barn algjörlega á mínum forsendum á þeim stað sem ég kaus. Það var líka dásamlegt hvernig hún sýndi Bjarna hvernig hann gat stutt við mig þannig að það er eins og við höfum bara gert þetta tvö ein, boðið son okkar velkominn í fjölskylduna.