Val á fæðingastað.

Landlæknir gaf út leiðbeiningar um val á fæðingarstað árið 2007. Þær eru enn í gildi. Þar eru heimafæðingar flokkaður sem fæðingastaður D2. Þær konur sem geta fætt heima eru hraustar konur í eðlilegri meðgöngu, ganga með eitt barn sem er með höfuðið niður og meðgöngulengd 37-42 vikur. Einnig er í leiðbeiningum Landlæknis farið í hvenær flytja á konur úr heimafæðingu á sjúkrahús.
Algengasta ástæða þess að kona er flutt á sjúkrahús úr heimafæðingu er ósk konu. Hún óskar eftir deyfingu eða þarf örvun með lyfjum. Aðrar ástæður eru móðir með blæðingu eða hita í fæðingunni, barnið fer að kvarta, gæti sést grænt legvatn eða þegar fósturhjartsláttur er hlustaður þá er hann óeðlilegur. Einnig gæti verið ástæða til að flytja konu á sjúkrahús þegar legvatn hefur verið farið í meira í 24 klukkustundir og konan ekki komin í virka fæðingu. Mikill hluti kvenna fer á sjúkrahús í einkabíl, sumar í sjúkrabíl oft vegna þess að þær treysta sér ekki til að sitja í einkabíl. Þá er mjög óalgengt að kona sé flutt úr heimafæðingu á sjúkrahús í sjúkrabíl með bláum ljósum.
Sumar konur og börn, eru fluttar á sjúkrahús eftir heimafæðingu. Ef barnið þarf skoðun læknis eftir fæðingu, ef konan hefur rifnað það mikið að ljósmóðir treystir sér ekki til að sauma, blæðing er meira en eðlilegt getur talist.
Einnig er bæklingur um Val á fæðingarstað á ljósmóðir.is

Kostir heimafæðinga:

Heimafæðingar með aðstoð ljósmóður eru jafnöruggar og sjúkrahúsfæðingar fyrir heilbrigðar hraustar konur sem eiga vona á heilbrigðu barni. Rannsókn Berglindar Hálfdánsdóttur á heimafæðingum á Íslandi styður þetta. Þá mæla nýlegar leiðbeiningar frá Bretlandi, frá aðila (NICE) sem við styðjumst við hér á landi, með að heilbrigðar konur fæði utan hátæknisjúkrahúsa.
Það að velja fæðingarstað snýst um að vera þar sem þú finnur þitt öryggi. Það er mjög misjafnt hvar konur finna sitt öryggi. Fyrir þær konur sem það kjósa, þá er það að fæða heima ómetanlegt. Þar nýtir konan sína eigin styrkleika til að fæða barnið sitt á þann hátt sem hún telur best. Það að velja að fæða heima minnkar líkur á inngripum í fæðingu og að þú fæðir án þess að nota lyf í fæðingu. Fjölskyldan velur ljósmóðurna og hefur kynnst henni fyrir fæðingu og milli fjölskyldunnar og ljósmóðurinnar hefur myndast gangkvæmt traust. Auk þess sem fjölskyldan velur hvort fleiri en foreldrarnir séu viðstaddir fæðinguna og þá hverjir.

Helstu kostir:
Rannsóknir hafa sýnt að jákvætt viðhorf til heimafæðinga hefur marktækt jákvæð áhrif á viðhorf til fæðinga almennt, sem aftur leiðir til lægri tíðni hríðaörvunar með lyfjum, mænurótardeyfinga og innlagna á nýburagjörgæslu. Þannig eykur það, að velja að fæða heima, líkurnar á að fæða á náttúrulegan hátt (án deyfinga og lyfja).
Minni lýkur á sýkingum, bæði fyrir móður og barn, í heimfæðingum en fæðingum á sjúkrahúsum. Barn sem fæðist heima er ekki útsett fyrir bakteríum sem eru inni á sjúkrahúsum. Þannig fær óþroskað ónæmiskerfi barnsins tækifæri til að þroskast í bakteríum heimilisins sem mamman er ónæm fyrir og mótefni gegn þeim fara yfir fylgjuna til barnsins.
Árangursríkari brjóstagjöf þar sem engin truflun er við tengslamyndun. Sama ljósmóðirin sem er viðstödd fæðinguna og hjálpar til við fyrstu brjóstagjöfina og kemur í vitjanir heim fyrstu 10 dagana eftir fæðingu.
Það besta við heimafæðinguna er að vera í sínu rúmi eftir fæðinguna. Þú er í þínu umhverfi að borða þann mat sem þig langar í. Allt er á þínum forsendum og engin tímamörk.
Lífeðlisfræðilegt þriðja stig fæðingar (náttúruleg fæðing fylgju), ef engir áhættuþættir fyrir blæðingu eftir fæðingu eru til staðar. Þetta þýðir að naflastrengur er ekki klipptur fyrr en í fyrsta lagi að sláttur er hættur í naflastreng eða bara þegar foreldrarnir eru tilbúnir til að klippa naflastrenginn, sem oft er ekki fyrr en eftir að fylgjan er fædd. Þá fær barnið allt það blóð sem því tilheyrir frá fylgjunni ásamt þeim stofnfrumum sem í blóðinu eru. Lífeðlisfræðilegt þriðja stig fæðingar þýðir að ekki eru gefin samdráttarlyf til að hraða fylgjufæðingu nema vandkvæði komi upp eða að ósk konu. Beðið er eftir því að fylgjan fæðist með því að móðirin rembist.

Hormón fæðingarinnar.

Sarah Buckley er heimilislæknir frá Ástralíu og heimafæðingakona. Hún hefur skrifað mikið um hormón fæðingarinnar. Mjög mikill fróðleikur er á heimasíðu hennar, en ég mæli með að þú skráir þig á póstlista á vefsíðunni hennar þá verður þér boðið að fá bókina Ecstatic Birth ebook á rafbókarformi, senda frítt í tölvupósti. Mjög góð lesning um eðlilega fæðingu.

Feður og heimafæðingar:

Skemmtileg tilvitun í heimafæðingapabba:
Fyrir mig snérist þetta allt um að tryggja að kona mín væri í sem þægilegustu umhverfi fyrir hana, eftir allt þá er það hún sem þarf að færa barnið í heiminn. Hvað e þægilegra en að vera heima hjá þér og kúra uppi í eigin rúmi eftir fæðingu. Ekki aðeins það, í fæðingunni, færð þú að velja tónlistina, lýsingu, drykk, mat og hafa allt eftir þínu höfði, eftir allt er þetta heimili þitt. ~ Rob

Mæli með að lesa grein Ven Batista 7 Secrets of Homebirth from a Dad’s Perspective.

K-vítamín:

Mælt er með að nýfæddum börnum sé gefið K-vítamín (Konakion) fljótlega eftir fæðingu. Þetta er efni sem tekur þátt í storknun blóðs og minnkar þannig líkur á sjúkdómi sem kallast blæðingasjúkdómur nýbura. Á Íslandi er algengast að K-vítamín sé gefið með sprautu í læri barnsins stuttu eftir fæðingu, en einnig er hægt að gefa það um munn.. Nýburinn fæðist með lítið magn af þessu efni í líkamanum og það tekur tíma fyrir bakteríur í þörmum barnsins að fara að framleiða K-vítamín.
Algengast er að k-vítamín sé gefið í vöðva

Á ljósmóðir.is er bækingur um k-vítamín fyrir nýbura.

Sara Wickham er bresk ljósmóðir sem hefur skrifað mikið um k-vítamín bæði á vefsíðu sinni sarawickham.com og einnig hefur hún gefið út bókina Vitamin K and the newborn.