Ég heiti Harpa og var hjá Maggý í jóganu frá 33-37 viku, svo tóku við lokapróf í HÍ og tíminn varð naumur og jógað útundan. Ég bý þó að góðri reynslu og ráðum eftir þennan stutta tíma.  Til þess að undirbúa draumafæðinguna ákvað ég eins og þið allar að koma í jóga hjá Maggý. Ég fjárfesti Hypnobirth og Active Birth, ilmkjarnaolíum, komin með TENS tæki, 4 mismunandi playlista fyrir fæðinguna og ég veit ekki hvað.  Óskalistinn fyrir fæðinguna spannaði heilar 6 blaðsíður af óskum, hugmyndum og minnisatriðum…
”Ég óska þess að hafa rólegt andrúmsloft, dimmeruð ljós, nota slökun, nudd o.sv.frv.”
Ég var með þetta allt á hreinu, það sem ég vildi og var til í að prófa og nokkur atriði sem ég vildi helst sleppa. En jæja…víkjum nú að fæðingunni sjálfri… Ég var sett Sunnudaginn 29.apríl með litla dömu. Á fyrri meðgöngu fór ég af stað á settum degi og ég bjóst því ekki við að ganga neitt svakalega framyfir.
Á mánudeginum (30.apríl) svaf ég til 10, tók því rólega. Ég sótti strákinn minn snemma í skólann svo við gætum átt smá tíma saman, maður veit jú aldrei hvenær maður fer af stað. Ég var hin spakasta og við fórum í Smáralind og keyptum snuddur og fórum á pylsubarinn. Síðan lá leiðin í vinnuna til pabbans og þaðan til langömmu og langafa þar sem frændur og frænkur að Austan biðu í röðum.  Stefnan var tekin á stóran fjölskyldumálsverð og hvorki meira né minna en níu manns sátu til borðs og snæddu og ræddu saman, og auðvitað barst talið nokkrum sinnum að því hvort litla daman ætlaði ekki að fara láta sjá sig.
Jú, jú, við foreldrarnir vonuðum það nú sannarlega enda búin að bíða í 40 vikur!!! Klukkan rúmlega níu komum við svo heim. Í rólegheitum fór ég bara í sturtu og horfði á einn þátt í tölvunni og var eitthvað að dúlla mér…
Það leið svo ekki á löngu þar til ég fékk samdrátt…eða 23.07, hann var þó algjörlega verkjalaus og ég óskaði þess nú innst inni að ég færi nú kannski af stað í bítið. Fimm mínútum seinna kom annar og nú fylgdi pínu seiðingur með!!! Jíbbí…var þetta virkilega að fara að gerast?
Heyrðu…halló…5 mínútur og annar… og annar…Hvað er í gangi? Ég vek síðan bóndann kl.12.00 á miðnætti og segi, Ísak, ég held ég sé komin með hríðar. En verkirnir voru ekki mjög harðir og ég segi, við skulum nú ekkert vera að láta neinn vita, þetta gæti alveg verið fyrirvaraverkir eða dottið niður… Pabbinn rauk stoltur á fætur og ég segi, heyrðu viltu ekki pakka ofan í tösku fyrir pjakkinn og skutla honum til mömmu og pabba (þau búa í næstu götu).
Nú fóru hjólin heldur betur að snúast…og það voru 2,5 mínúta á milli verkja og þeir vörðu í 30-40 sekúndur…svona gekk þetta koll af kolli. Þar sem verkirnir voru alls ekki sterkir og ég gat vel talað á meðan þeir vörðu, þá var ég ekkert að flýta mér neitt óskaplega mikið.
Með einstakri innlifun og jógagleði söng ég Ong Namo hljóðlega til þess að anda mig í gegnum verkina…Ég labbaði um gólf og ruggaði mjöðmum til þess að hjálpa krílinu niður…Ég segi síðan við pabbann, “ ég ætla að stökkva í sturtu, til að lina bakverkina…ég þori ekki í bað of snemma því þá getur allt bara dottið niður…”  Ég fer inná bað og fæ þá allt í einu þenna roknarembing!!!  Ég bara…hólí móli…Nú var best að taka á honum stóra sínum, ég var ennþá heima – uppi á Vatnsenda – og við áttum eftir að koma stóra strumpnum í pössun… Við ákváðum því að fara öll í og skutla drengnum og kíkja síðan niður á spítala…Svona til vonar og vara…Klukkan 00:28 var því hringt niður á Hreiður og stofa með baðkari tekin frá… Bíllinn er sóttur og ég geng fram í forstofu..Viti menn, annar rembingur…”Váá…Ísak…hringdu í pabba og segðu honum að koma að sækja drenginn…Ég meika ekki að vera of lengi í bíl…!!!”  Og annar rembingur… Greyið bóndinn hljóp eins og hauslaus hæna fram og tilbaka.   Klukkan 00:30, “Ísak, það er spurning um að hringja bara á sjúkrabíl…”
Ég hugsa með mér…“Vááá..ég er í minni eigin bíómynd, hér ligg ég á fjórum fótum inni í forstofu, ekki komin í úlpu eða skó…POPP og vatnið gusast útum öll gólf…”
Annar rembingur…  “Ó MÆ GOD!!!  Kollurinn er komin niður…”  Sjúkrabíllinn var 4 mínútur á leiðinni, á meðan skreið ég á fjórum fótum og alklædd inn í íbúðina aftur…2 metrum seinna kom rembingur og ég rétt næ að kippa buxunum niður á mið læri… Klukkan u.þ.b. 00:35 hringir bjallan og sjúkrabíllinn kominn og sjúkraliðarnir hlaupa inn…Pabbi minn skýst inn um leið  til þess að sækja stóra strákinn… Sjúkraliðinn kemur strax og athugar gang mála og segir…”Heyrðu vinkona, höfuðið er bara komið!!!  Einn rembingur og barnið er komið”
Kl: 00:36  : Lítil dama SKAUST þá í heiminn, sælleg og fín, 1 klukkutíma og 14  mínútum eftir fyrstu hríð! Í sjokki reyndi ég að tjá mig við Bjarna sjúkraliða (sem tók á móti) og ég sagði…” ég ætlaði að láta fylgjuna slá út!!!”  Hann skildi auðvitað ekkert afhverju ég væri að blanda einhverju rafmagnsmáli inn í þetta…Slá út hvað…eins og í rafmagnstöflu!  Að lokum skildi hann mig þó og við biðum aðeins…Naflastrengurinn var þó ekki mjög langur og ég gat ekki tekið hana almennilega til mín svo pabbinn klippti á strenginn fljótlega… 3-4 mínútum seinna fann ég síðan fylgjuna bara renna mjúklega niður… Allt gekk barasta eins og í sögu…Amman sem ætlaði að vera viðstödd rann nú í hlað á náttsloppnum og nýbakaður pabbinn hljóp til dyra í útiskónum, dúnúlpu og sveittari en maraþonhlaupari eftir langhlaup!!!
Um leið og seinni sjúkrabíllinn, sem kom 12.44, 8 mínútum eftir fæðingu, kom ljósan…og viti menn…ævintýrið ætlaði engan enda að taka því inn gekk draumaljósan mín, hún Kristbjörg heimafæðingarljósa. Hún sem hafði einmitt heillað mig gjörsamlega uppúr skónum á fyrirlestri sem hún var með í jóganu!!!  Jiminn eini, ég hlýt að búa í Hollywúdd!!! Alls vorum við nú 12 manns þarna á litla ganginum, 5 sjúkraflutningamenn sem stóðu sposkir og fylgdust með, ljósan mér við hlið, afinn í leðurjakka með bílinn í gangi og í sjokki, amman á náttsloppnum með hjartað í buxunum, pabbinn kófsveittur og stoltur í skærblárri dúnúlpu með tárin í augunum og stóra strákinn í örmunum…svo sátum ég og litla rakettan á bunka af handklæðum á gólfinu og horfðumst í augu! Litla blúndan fór meira að segja strax á brjóst og mótmælti harkalega ef það átti að breyta því eitthvað!!! “Já nei takk, hér er ég bara komin til að vera!!!”
Eftir allan undirbúningin, öndunaræfingarnar og óskalistana, lesefni og nuddnámskeið fuku flest plön útum gluggann… Ég fékk þó algjöra draumafæðingu, innpakkaða í glimmer og með regnbogaböndum!!! Yndislegast af þessu öllu saman var þó án efa að fá að eyða fyrstu nóttinni öll saman uppi í hjónarúmi við kertaljós og kósíheit. Þetta var draumur í dós og rúmlega það.
Gangi ykkur öllum vel og takk fyrir yndislegar stundir í jóganu Maggý…
Kveðja,
Harpa og litla rakettan