Mættum í gangsetningu upp á fæðingargang kl. 8.15 föstudaginn 24. feb. Auðvitað sváfum við rosalega lítið um nóttina því við vorum svo spennt og til að toppa svefnleysið þá flaug ég „á hausinn“ fyrir framan Kvennadeildina! Rann semsagt í blautri drullu og fékk þessa fínu rispu á hnéð – sem betur fer hélt Bynni í mig, vil ekki vita hvernig þetta hefði getað farið annars! Við komumst svo ekki strax að því það var verið að þrífa eitt herbergið sem hafði losnað rétt áður en við mættum á staðinn.

Um 9 leytið fengum við að fara inn og mér var skellt í rit og Kristín ljósmóðir tók blóðprufu úr mér með stasa (er enn með þennan fína marblett á höndinni eftir það) og hún ákvað að setja upp nál í handarbakið líka, bara til að ljúka því af til öryggis því ég var auðvitað hágrátandi eftir fyrri stunguna. Hún athugaði svo útvíkkunina og um 9.30 gaf hún mér Klyx til að tæma kerfið (ji minn, aldrei hef ég hlaupið jafnhratt á klósettið!).

Um 10.30 sprengir Kristín svo belginn en það var nú meira að segja það þar sem það var gjörsamlega ekkert legvatn eftir! Hún sagði að þetta hefði verið eins og að reyna að krækja í sundhettu því það var gjörsamlega ekkert bil á milli belgsins og rassins. En þetta tókst hjá henni enda algjör reynslubolti. Það liðu svo bara örfáar mínútur þar til fyrsti verkurinn kom. Akkúrat þá kom Kristbjörg ljósmóðir til okkar sem hafði verið með okkur í mæðraverndinni en hún ætlaði að vera með okkur í fæðingunni.

Kristín hafði látið mig fá nuddbolta til að kreista í hríðunum en þeir enduðu fljótlega á gólfinu. Kristbjörg kom inn með jógabolta og ég settist á hann og það hjálpaði mikið því það var svo gott að geta hreyft mig smá í hríðunum. Hún lét líka róandi ilmolíu á úlnliðina. Verkirnir komu bæði í bakið og neðst í bumbuna. Kristbjörg lét mig fá kaldan bakstur með ilmolíu til að láta á bumbuna en ég gafst upp á honum eftir þrjár hríðar – fannst hann bara auka verkinn. Ég var á boltanum megnið af útvíkkunartímanum og hallaði mér fram á rúmið líka. Kristbjörg kenndi Bynna Hypno-Birth baknudd en þegar hríðin kom þá vildi ég ekki neinn myndi snerta mig, vildi bara fá að anda mig í gegnum verkinn. Það sem mér fannst best var að hlusta á Grace-diskinn og bara einbeita mér að honum og syngja með í hausnum og kreista hendurnar á Bynna.

Undir lokin fannst mér ég alveg vera að missa tökin og bað um deyfingu – alveg sama þótt það væru nálar og ég hefði verið harðákveðin í að fá ekki mænudeyfingu – ég hélt að ég myndi deyja því hver hríð var svo hörð og ég hélt að þetta myndi aldrei enda. Kristbjörg athugaði þá útvíkkunina en hún var komin í 7-8. Hún fór þá og náði í fæðingalækninn, Helgu, sem var sko allt annað en sátt við að ég hefði ekki verið búin að fá mænudeyfingu til öryggis. Helga kom inn og athugaði líka útvíkkunina sem var þá komin í 9 og því allt of seint að fá deyfingu.

Ég man ekkert voðalega mikið eftir þessu öllu saman því ég einbeitti mér bara að tónlistinni og önduninni. Ég opnaði augun þarna eitt sinn og sá þá að stofan er full af fólki. Næsta sem ég man er að það er búið að setja fæturna á mér upp á statíf og Helga segir nafnið mitt nokkrum sinnum og segir að næst verði ég rembast því annars komist barnið ekki út. Þetta var um 13:20. Ég var nú ekki alveg á þeim nótunum, ætlaði bara að anda mig í gegnum þetta því það var að ganga upp þótt það væri vont. En eins gott að hlýða hugsaði ég á endanum og fór að rembast með hríðunum. Ég fann aldrei þessa rembingsþörf heldur bara hríðar trekk í trekk og þurfti virkilega að hafa fyrir því að rembast. Ég reyndi að einbeita mér að tónlistinni og heyrði bara inn á milli smá skvaldur í öllu þessu fólki, m.a. „réttu mér aðra undirbreiðu“ og „ég þarf að skipta um hanska“ og svo heyrði ég klipp-hljóð, hélt að Helga hefði e.t.v. verið að klippa naflastrenginn en pældi ekki meira í því. Næsta sem ég veit er að allir eru að hvetja mig áfram og eru rosalega spenntir þannig ég fæ smá meiri orku til að rembast. Ég finn þá þrýsting og finn að það er eitthvað að koma út. Spenningurinn magnast í herberginu og ég þarf bara að rembast smá í viðbót skv. viðstöddum. Ég geri það og þá poppar eitthvað út! Ég fann bara fyrir rosalegum létti og rosalegri tómatilfinningu í maganum – hann var fæddur og klukkan var þá 13.52 (fæðingin tók u.þ.b. 3,5 klst. frá því að belgurinn var sprengdur). Stráknum er skellt beint á magann á mér en er svo tekinn í burtu af barnalæknanemunum. Ég heyri svo grátur hjá þeim en sný mér bara að Bynna og Kristbjörgu og segist vera svöng! (Man ekki eftir þessu, Bynni sagði mér það eftir á!). Kristbjörg og Helga taka á móti fylgjunni en það var ekkert voðalega þægilegt því Kristbjörg þurfti að ýta svo fast á magann á mér til að ýta á eftir henni. Ég fékk strákinn svo aftur í fangið og við mér blasa þessu stóru augu. Hann var líka á fullu að reka tunguna út úr sér sem var ekkert smá sætt. Voða rólegur og ekkert að gráta hjá mömmu sinni, bara að skoða hana og leyfa henni að skoða sig. Helga segir mér þá að hún hefði þurft að gefa mér sprautu í spöngina og hefði klippt mig og  því þyrfti hún nú að sauma. Mér var alveg sama. Ég horfði bara á litla strákinn minn sem horfði bara á mig á móti.

Áður en ég veit af eru svo allir farnir úr herberginu nema Bynni og Kristbjörg (og auðvitað ég og litli guttinn). Við prófuðum að setja hann á brjóst og hann saug smá en var samt meira í því að sleikja brjóstið. Ég skalf alveg rosalega mikið eftir fæðinguna og bað Bynna að klæða mig í sokka – frekar fyndin forgangsröðun – hugsa fyrst um svengd og svo hvað það var nauðsynlegt að komast í sokka þegar ég var nýbúin að fæða barn! Held að það hafi tekið smá tíma fyrir þá hugsun að síast inn í hausinn á mér. Kristbjörg mældi svo strákinn en hann var 3030 gr og 50 sm. með dökkt hár og blá augu og auðvitað langfallegastur.

Elsku Kristbjörg,

takk enn og aftur fyrir samfylgdina allan þennan tíma. Þú varst stór hluti af púsluspilinu sem lét þetta allt ganga upp og ganga svona vel og við verðum þér ætíð þakklát fyrir það.

Kv. Margrét og Bynni.