Árið 2014 eignaðist ég einstaka stúlku á afmælisdegi mömmu minnar heitinnar. Hún fékk nafnið hennar auðvitað. Sú fæðing var erfið, og þá sérstaklega aðdragandinn, en fæðingin sjálf gekk síðan vel. Þá hafði ég farið niður á deild snemma með mjög harðar hríðar en mældist með engaútvíkkun ennþá, og fékk að fara inn á herbergi strax þrátt fyrir það. Ferlið tók 19 klukkustundir og eini staðurinn sem ég gat verið á var baðkarið, en mér þótti erfitt að standa upp úr baðinu og fara á klósettið (þurfti að gera það á 2 tíma fresti) og þar sóttu að mér erfiðar hugsanir, m.a. um dauðastríð mömmu minnar sem dó úrAlzheimer árið 2009. Mér fannst dauðinn vera nálægur sem sagt, og þetta var mér erfitt ferli. Á endanum þáði ég mænudeyfingu og náði að hvílast fyrir fæðinguna sjálfa, en ég stoppaði í 7 í útvíkkun í margar klukkustundir.

Þegar ég verð síðan aftur ólétt tveimur og hálfu ári síðar, blessunarlega, sótti að mér kvíði á óléttunni um næstu fæðingu. Ég ákvað því að horfast í augu við hræðsluna og var með galopið hugarfar. Tímarnir hjá Auði hjálpuðu mér mikið og ég fann að ég „heyrði“ oft skilaboðin hennar mun betur en síðast, sennilega því ég hafði gert þetta einu sinni áður. Ég ákvað að leita til Soffíu doulu, komin á áttunda mánuð meðgöngu, og hugsaði með mér að það myndi vera gott að hafa „mína“ manneskju með mér til að styrkja mig og styðja, þar sem mennirnir manns eru jú takmarkaðir þrátt fyrir að vera yndislegir J. Soffía sendi mig með lesefni og ég drakk allt í mig, endalausar fæðingarsögur, og lifði og hrærðist í þessu í svona viku yfir páska. Í næsta tíma hjá Soffíu, þar sem við hjónin mættum fyrst saman, spurði hún mig hvort ég væri áhugasöm um heimafæðingar, en hún fann það á sér einhvern veginn. Ég játti því en sagðist hvorki vera nógu mikill hippi né héldi ég að maðurinn minn væri til í það.

Við fórum yfir hlutina og öryggisatriði og fórum svo heim að hugsa. Það varð úr að við ákváðum að reyna þetta heima. Mig langaði líka til að vera heima með þriggja ára dóttur minni og þurfa ekki að senda hana burt til þess að fara á spítalann. Einhvers staðar var ég hrædd við að eiga ekki möguleika á mænudeyfingu, en eftir að hafa lesið mikið þá vissi ég að ef ég leyfði óttanum ekki að ráða þá myndi þetta ganga mjög vel. Því fóru öll kvöld í að taka smá slökunartíma í baði, hlusta á podcöst um fæðingar og segja mér aftur og aftur að ég gæti þetta.

Við áttum fund með stelpunum í Björkinni og það var frábært, svo við sannfærðumst enn frekar um að gera þetta heima. Eftir það fóru skoðanir fram heima hjá mér, þær settust með mér og drukku kaffi eða te og ég var skoðuð í sófanum heima. Þvílíkt frábært og yndislegt að fá að kynnast ljósmæðrunum sínum fyrirfram og heima hjá sér! Þær sögðu að munurinn væri sá að það að eiga á spítala fæli í sér að þú færir á vettvang heilbrigðisstarfsfólksins, en værirðu heima þá væri því öfugt farið. Þetta þótti mér frábærlega vel sagt og ég sannfærðist enn meira.

Á 39. viku fékk ég flensu, og ég vissi að það væri að styttast í þessu. Um leið og ég var farin að braggast fór ég af stað, að kvöldi laugardags 27. maí. Ég fór í langan göngutúr sama dag og í bumbupartí hjá Auði og var aktíft að koma líkamanum í réttan gír. Fyrsta hríð kom um tíuleytið um kvöldið. Stuttu síðar hættu hríðarnar og við lögðumst til hvílu, en eftir að maðurinn minn sofnaði byrjuðu þær aftur. Ég hugsaði um hríðarnar sem bylgjur og fagnaði því innilega þegar þær komu aftur. Ég reyndi að liggja sem lengst en það var eiginlega óbærilegt og ég svitnaði mikið. Ákvað því að fara framúr líka til að vekja manninn minn ekki, og gekk um gólf og fékk mér te, kveikti í arninum og horfði mikið út á sjó. Einbeitti mér að því að taka eftir öllu fallegu, hugsaði fallega, og fagnaði hríðunum. Þegar þær komu hugsaði ég „Já, komdu, komdu!“ og sagði það jafnvel upphátt. Tímasetti þær með appi og einbeitti mér að því að anda. Taldi upp að 20 í innöndun og 20 í útöndun, en þetta hafði ég æftstíft. Oftast dugði það fyrir hverja hríð en stundum þurfti ég tvær svona andanir. Hríðarnar voru sem sagt alveg jafn kröftugar og í fyrra skiptið, en í þetta sinn var ég tilbúin og fagnandi og alls ekki hrædd. Þvílíkt sem það hjálpaði! Sömuleiðis notaði ég mjaðmahristur (svona eins og í magadansi) þegar hríðarnar fjöruðu út, og visualiseraði að ég væri að hrista þærúr rófubeininu. Þannig náði ég spennu úr mjóbakinu eftir hverja hríð, í stað þess að þær sætu þar sem fastast. Þetta hjálpaði gríðarlega og mér fannst ég vera kynþokkafull þegar ég hreyfði mig. Ég bjó mér til fallega mynd í huganum, þar sem verndarhringur fólks sem ég hef misst (móðir, bróðir og amma) var í kringum okkur fjölskylduna. Þar setti ég einnig Auði, þar sem hún sat í lótusstellingunni brosandi og falleg. Orka var allt um kring og ljós. Þessi helgimynd hjálpaði. Þetta var að gerast og ég var vernduð og örugg.

Ég var í sambandi við Soffíu um kvöldið og af og til um nóttina og hún hvatti mig til að hringja um leið og ég þyrfti hana. Um klukkan fimm hringdi ég svo í hana og hún var komin stuttu síðar, og sat hjá mér og við drukkum te í rólegheitum á milli hríða. Ég fékk mér líka að borða um nóttina, sem er mjög mikilvægt þar sem hríðarnar eru orkufrekar. Um sjöleytið hringdum við til Kristbjargar ljósmóður, sem hljóp í skarðið fyrir þærhjá Björkinni þar sem þær voru einmitt að fara að hafa opið hús næsta dag og komust því ekki. Ég vissi hver Kristbjörg væri bara af orðspori og treysti henni algjörlega, og kveið því engu þrátt fyrir forföllin. Allt var eins og það átti að vera.

Um kl. sjö kom Kristbjörg, og þá vaknaði allt húsið. Skottan mín fór á fætur með pabba sínum og ég fór að elda hafragrautinn fyrir hana – og Soffía tók hana að sér á meðan maðurinn minn fór í sturtu. Allt var rólegt og gott og ég borðaði hafragraut standandi og í mjaðmahristum J. Eftir þetta var eins og hríðarnar færu í þriðja gír, allt af stað! Kristbjörg mældi mig um kl. átta og þá var ég í fimm í útvíkkun. Hún mældi mig ekki aftur, sennilega til að ég færi ekki að búast við því að stoppa í sjö eins og síðast. Ég reyndi að fara í baðið, en ég á stórt bað heima svo ég var ekki með fæðingarlaug. Þar leið mér hins vegar alls ekki vel enda þurfti ég orðið nudd á mjóbakið. En ég sat með krosslagðar fætur og maðurinn minn var inni hjá mér, og ég andaði eins og ég gat og hugsaði eins jákvætt og ég gat. Þvílíkt sem þetta reyndi á! Ég sagði: „Ég get þetta, ég er að gera þetta!“ aftur og aftur. Maðurinn minn var í símanum sínum að skoða eitthvað en ég náði athygli hans og horfði í augun hans og sagði: „Ég elska þig!“ og við kysstumst innilega. Ég hafði lesið að það að vera jákvæð og upplifa þakklæti hjálpaði, sem og innilegur koss. Enda er opnunin í útvíkkun í eðli sínu kynferðisleg, líkt og að geta stundað kynmök og upplifað þau hrikalega sársaukafull, eða ofsalega ánægjuleg. Þetta hjálpaði.

Ég þurfti að koma mér úr baðinu og það var erfitt, hríðarnar virtust ekki stoppa. Soffía hjálpaði mér og nuddaði á leiðinni inn í rúm, pakkaði mér vandlega inn þar sem ég var komin með skjálfta. Allan tímann andaði ég og það heyrðist varla í mér. Ég eyddi engri orku í kvart eða öskur. Soffía hamaðist á bakinu á meðan maðurinn minn lá við hliðina á mér og hélt í höndina mína. Allt í einu fann ég þörf fyrir að rembast, og ég trúði því varla að þetta væri komið svona langt strax. Ég fylgdi á eftir og gaf eftir þörfinni, og það var smá augnablik sem ég hugsaði: „ef ég rembist, þá kúka ég!“ en ég gerði það samt. Haha, það var ótrúlega fyndið að ég hefði getað streist á móti þessari þörf af pempíuskap einum. En ég treysti á konurnar mínar sem voru þarna hjá mér og með mér. Stelpan mín var orðin forvitin og vildi koma inn, og ég sagðist vilja hafa hana inni. Hún horfði því á þegar kollur barnsins var kominn í ljós og sagði: „núna getur mamma ekki pissað!“. Það fannst mér hrikalega fyndið þótt ég væri á kafi í þessu ferli. Þremur hríðum seinna var stúlka fædd. Stjúpsonur minn, 17 ára, og tengdamamma komu inn rétt á eftir og við horfðum öll á stúlkuna í fanginu mínu. Soffía og Kristbjörg voru snöggar að öllu og öruggar í sínu, svo að enginn sá neitt blóð eða vesen. Ég fékk að liggja með hana nýfædda heillanga stund, örugglega klukkutíma, áður en strengurinn var klipptur. Þær gengu svo frá öllu og skiptu um á rúminu í rólegheitunum, og voru hjá okkur í fjórar klukkustundir í viðbót. Það var yndislegt alveg. Stjúpsonur minn var alveg hissa, því að hann heyrði aldrei neitt stress eða spennu eins og hann hafði búist við. Það heyrðist aldrei í mér, því að ég leyfði líkamanum að stjórna og gaf alveg eftir í fæðingunni, og öndunin var djúp.

Ég er svo þakklát fyrir þessa reynslu og þakklát fyrir að hafa getað átt heima. Mæli með þessu fyrir allar áhugasamar. Eftirfylgnin var svo áfram í höndum Kristbjargar. Það var líka yndislegt. Soffía kom sömuleiðis tvisvar í heimsókn og var mikið í mun að við töluðum um fæðinguna og ynnum úr hlutunum ef eitthvað væri, en svo var ekki. Þessi eftirfylgni þótti mér vera ótrúlega góð, í stað þess að vera útskrifaður af spítalanum án þess að sjá ljósmóðurina nokkurn tímann aftur sem tók á móti barninu manns. Ég man ekki hvaða ljósmæður voru með mér í fyrstu fæðingu, myndi ekki þekkja þær aftur, en ég fór í gegnum þrjú vaktaskipti þá. En í þetta sinn hef ég eignast nýjar vinkonur og það er ekkert nema yndislegt.

Sem betur fer var leikskólaferð hjá stóru systur sama dag í sveitina og tengdamamma tók hana þangað. Þá gátum við hvílst og sofnað aðeins. Þegar hún kom aftur var ég komin á fætur og tók á móti henni og knúsaði hana fast. Mér fannst mjög mikilvægt að hún upplifði mig ekki veika og að ég væri enn til staðar sem mamma hennar. Hún sagði: „Mamma, þetta fannst þér ekki vera gott,“ og við spjölluðum um fæðinguna og að litla systir hennar væri fædd. Ég leyfði henni sjálfri síðan að stjórna, og geri enn, þ.e. hvort og hvenær hún sæi litlu systur og snerti hana. Nú er hún orðin tólf vikna gömul og þriggja ára systir hennar er afskaplega ánægð með hana. Mér finnst eins og það að hafa gert þetta heima hafi gert þetta ferli betra fyrir hana, þótt lífið hafi kollvarpast líka við að eignast systkini. Ég var síðan komin strax á ról og gat farið á hjóli á þriðja degi að sækja stóru systur á leikskólann. Mér fannst ég vera mun fyrr að jafna mig en síðast og var líka ótrúlega stolt af sjálfri mér.