Ég var gengin 41 viku og 2 daga og því gengin 9 daga fram yfir settan dag. Á 37. viku hafði ég misst slímtappann og fengið mjög reglulega samdrætti sem svo duttu niður. Eftir að hafa haldið að allt sé að gerast varð ég mjög óþolinmóð og vonaðist á hverjum degi til þess að hún léti nú bara sjá sig. Ég vissi ekki þá að slímtappinn getur vel myndast aftur og segir ekki endilega til um hvort maður sé að fara af stað í fæðingu. Það hjálpaði mér ofboðslega mikið að vera í jóga og minna mig á að ég er hérna til að bjóða þessa litlu mannveru í heiminn á sínum forsendum, ég er til fyrir hana, ekki öfugt. Ég náði því aftur að komast í æðruleysi og einsetti mér að njóta tímans í botn þar til hún kæmi og fara mikið út að borða og eiga gæðastundir með manninum mínum.
Aðfaranótt laugardagsins 1. des vaknaði ég kl. 4 við það mikla samdrætti að ég þurfti að fara á fjóra fætur og vagga mér aðeins til í rúminu áður en ég fór fram úr til að pissa. Ég var orðin vön þessum „fyrirvaraverkjum“ og reyndi að fara aftur að sofa. Ég var skráð í próf kl. 14 á laugardeginum en var ekki enn búin að gera upp við mig hvort ég ætlaði að fara, var lítið lesin enda ætlaði ég mér alltaf að vera búin að eiga stelpuna á settum degi 22. nóvember. Ég gat hins vegar ekki sofnað aftur og fór því bara fram úr kl. 5 og fékk mér cocoa puffs, en það gerði ég oft þegar ég var andvaka og vorkenndi mér. Ég reyndi að sofna aftur uppí sófa en það gekk ekki, fékk nokkra svona harða samdrætti aftur sem ég þurfti að anda mig í gegnum eða skipta um stellingu til að höndla þá. Um 7 leytið vakti ég manninn minn og sagði að ég væri andvaka. Hann er algjör svefnpurka sjálfur og bauðst til að reyna svæfa mig og tók mig í fangið. Að liggja í knúsinu hans var nóg til að róa mig niður svo ég gat dormað í um það bil klukkustund. Þá komu aftur frekar harðir samdrættir sem ég tengdi við að vera með fulla pissublöðru svo ég fór að pissa. Á klósettinu tók ég eftir að ég væri komin með bleika útferð alveg eins og á 37. viku. Minnug þess að þetta er ekki eina merkið um að eitthvað sé að gerast ákvað ég að segja ekki neitt og fór aftur og kúrði með manninum mínum. Annarri klukkustund seinna vaknaði ég enn á ný við samdrætti og fór á klósettið. Meðan ég sat á klósettinu rifjaðist upp fyrir mér það sem mig dreymdi. Mig dreymdi að ég sæti á læknabiðstofu með lilluna mína í höndunum, búin að fæða hana, en samt var eins og ég hefði ekki fætt hana þarna. „Skrýtinn draumur“ hugsaði ég með mér, „ætli þetta þýði að ég muni ekki fæða heima?“.
Frá 39. viku hafði ég velt fyrir mér möguleikanum á heimafæðingum. Ég var búin að lesa mér mikið til um náttúrulegar fæðingar frá Inu May Gaskin og hvernig spítalaumhverfið er oft hamlandi fyrir fæðingarferlið, sem er í sjálfu sér náttúrulegt ferli. Eins og svo margar konur er ég með afleiðingar kynferðisofbeldis svo jafnvel einfaldöstu kvensjúkdómaskoðun upplifi ég sem mikið inngrip og þarf tíma til að jafna mig eftir. Mér fannst því óþægileg tilhugsunin um að vita ekki hver myndi mæla útvíkkunina, hvort það yrði gert nógu varlega, hvort það yrðu margir ókunnugir á staðnum og fleira í þeim dúr sem ég óttaðist gætu truflað fæðingarferlið mitt og útvíkkunina þegar að þessu kæmi. Ég var líka búin að vera í meðgöngusundi alla meðgönguna og fannst svo mikil unun að vera í vatni að efst á óskalistanum mínum var að eiga barnið í vatni. Ég hafði því samband við Kristbjörgu heimafæðingarljósmóður sem vinkona mín hafði mælt með. Hún útskýrði fyrir mér að þar sem meðgangan hefði öll gengið vel væri ekkert því til fyrirstöðu að ég gæti bara átt heima í uppblásinni sundlaug sem hún útvegaði. Kristbjörg kom nokkrum sinnum í heimsókn og spjallaði við mig, setti í mig nálar og lét mig fá sundlaugina og allt til að gera tilbúið þegar að stóra deginum kæmi. Hún útskýrði að heimafæðingarljósmæður vinna þannig að ef minnsti grunur er á því að eitthvað sé að þá fara þær með konurnar upp á fæðingardeild og að viðbragðstími sjúkrabíla hérna á Reykjavíkursvæðinu væri undir 7 mínútum sem er oft sami tími og þarf til að kalla læknalið saman uppi á deild ef eitthvað kemur upp á þar. Svo ég upplifði aldrei að ég væri að taka meiri áhættu með því að vilja eiga heima, heldur ætlaði ég allavega að fá að byrja fæðingarferlið heima hjá mér í sem öruggustu umhverfi og vera þar eins lengi og ég gæti. Ef allt gengi vel myndi ég svo fæða heima í lauginni. Ég og maðurinn minn ákváðum því að fara þessa leið, en sögðum aðeins örfáum einstaklingum frá því ég vildi ekki fá neinar úrtölur eða hryllingssögur. Ég hafði gert það sama með fæðingarsögur og stoppaði fólk af ef það ætlaði að hræða mig með fæðingarsögum þar sem allt gekk illa. Alla meðgönguna hafði ég lesið mér til um fallegar fæðingar, horft á myndbönd á youtube með „water birth“ eða „orgasmic birth“ og einbeitt mér að því að fæðing væri fallegt og náttúrulegt ferli sem líkami konunnar væri hannaður til að framkvæma. Svo jafnvel þótt þetta væri mín fyrsta fæðing var ég sannfærð um að reynsla eldri kynslóða kvenna væru innprentaðar í DNA-ið í frumunum mínum svo líkami minn ætti að kunna þetta þótt hausinn gæti það kannski ekki.
Þegar ég fór aftur upp í rúm til mannsins míns sagði hann mér að í hvert skipti sem við dottuðum hefði hann dreymt fæðingar, fallegar náttúrulegar heimafæðingar. Ég sagði honum frá mínum draumi og við knúsuðumst og veltum fyrir okkur hvort það væri virkilega að fara koma að þessu. Við fórum fram úr um hádegið og ég tilkynnti mig veika í prófið. Ég ákvað að vera ekkert að tímasetja samdrættina nákvæmlega heldur bara fylgjast með þeim og kannski byrja að nota Contraction Master ef ég fyndi að tíðnin væri að aukast. Þar sem okkur fannst báðum líklegt að nú væri þetta að fara gerast ákváðum við að reyna gera fínt svo maðurinn minn ryksugaði og tók til og ég settist niður og byrjaði að skera niður ávexti í búst sem ég ætlaði að eiga sem góða næringu í fæðingunni. Svo sendi ég kallinn í Bónus að kaupa helstu nauðsynjar svo við værum vel birgð ef lillan okkar kæmi í heiminn. Mér fannst gott að vera einbeita mér að því að gera eitthvað með höndunum eins og að skera niður ávexti á milli samdrátta. Þegar þeir komu notaði ég haföndun og fann hvað ég þurfti að hafa mig alla við að anda og slaka í gegnum samdrættina í stað þess að spennast upp með þeim eða streitast á móti. Þegar ég fann til og hljóðaði „á“ upp yfir mig, reyndi ég að breyta því í „já, nú er leghálsinn að opnast og styttast til að gera fæðinguna auðveldari“ ég hugsaði að hver samdráttur og túrverkur hefði sinn tilgang í ferlinu og það væri undir mér komið að nýta hann til góðs eða streitast á móti og lengja ferlið. Þegar hann kom úr Bónus hafði hann keypt fullt af flatkökum og hangikjöti svo þegar ég var búin að gera ljúffengt ávaxtabúst fór ég að einbeita mér að því að smyrja flatkökurnar ofan í nestisbox. Ég kíkti alltaf á klukkuna þegar samdrættirnir byrjuðu og fannst eins og það væru ca. 7-10 mín á milli, stundum korter.
Ég hringdi í heimafæðingar ljósuna og sagði henni að ég héldi að ég væri svona að byrja að malla í gang. 1. des var reyndar eini dagurinn sem hún hafði grínast með að ég mætti ekki eiga á því hún var að fara halda matarboð fyrir ljósmæðrarhollið sitt og makana þeirra. Hún var mjög róleg yfir þessu og sagði bara „jájá ætli þú verðir ekki komin í gang um miðnætti, annars er ég með aðra ljósmóður á bakvakt sem getur komið fyrr“. Mér leið enn svo vel á milli samdrátta að ég hafði engar áhyggjur á því að þetta væri að fara gerast eitthvað hratt. Ég fann að ég þurfti oft á klósettið og líkaminn var byrjaður á einhvers konar náttúrulegri ristilhreinsun. Mér fannst samdrættirnir harðari þegar ég þurfti á klósettið en svo leið mér alltaf betur þegar ég var búin svo ég pældi ekki meira í því. Upp úr kl. 16 fór ég að nota contraction master á samdrættina og sá að þeir voru stundum á 5 mín. fresti en síðan alveg á 7 til 10 mín. fresti. Ég hugsaði með mér, úff hvernig verður það þá eiginlega að vera með hríðar ef þetta eru bara óreglulegir samdrættir. En svo hélt ég áfram að nota jógaöndunina og gera mitt besta til að opna og slaka mér inn í þetta ferli. Ég bjó til möntruna „ég fel mig þessu fæðingarferli fullkomlega á vald“ til að minna mig á að ég ætlaði að flæða með ferlinu en ekki streitast á móti. Um kl. 20 var mér hætt að lítast á blikuna, enn með óreglulega samdrætti og það var orðið virkilega sársaukafullt að fara á klósettið. Ég hugsaði að kannski væri ég bara ekki nógu sterk til að geta höndlað þennan sársauka, allar hríðarnar og rembingstímabilið og allt væri eftir. Þá fór að koma blóðlituð útferð í stað bleikrar svo ég hringdi aftur í ljósuna. Hún spurði hvort hún ætti að senda Maríu, hina ljósuna til mín til að láta kíkja á mig og ég samþykkti það. Á meðan dundaði maðurinn minn sér við að setja loft í fæðingarlaugina og raða byggingarplasti og handklæðum á góða staði. Þegar ljósan kom sat ég á klósettinu með harða samdrætti og sagði „úff ég vissi ekki að þetta væri svona erfitt“. Hún bauðst til að mæla útvíkkunina og sagði manninum mínum að byrja að fylla laugina af vatni. Ég hélt ég væri kannski komin með svona 4 í útvíkkun. Vá hvað mér brá þegar hún mældi mig og sagði að ég væri sko komin með 8-9! Ég fékk tár í augun og tvíefldist öll í þeirri viðleitni að ég gæti þetta alveg. Ég hafði semsagt verið með hríðar, en ég vissi það ekki því í mínum huga hétu þetta bara „óreglulegir samdrættir“ sem ég þurfti að einbeita mér af miklum móð við að anda mig í gegnum.
Þegar laugin var orðin full um hálf tíu leytið fór ég ofan heitt vatnið og naut þess að svamla um á milli hríða. Það hægði aðeins á þeim og ég nýtti hléið á milli til að handstýra manninum mínum við að stilla rétt birtumagn, setja jógatónlistina á og gefa mér eitthvað gott og ferskt að drekka. Ég notaði líka gaddabolta og spreybrúsa með lavender ilmi til að dreifa huganum og hjálpa mér að vera í núinu. Um hálf ellefu byrjuðu hríðarnar að verða tíðari og harðari svo María hringdi í Kristbjörgu sem kom um ellefu. Þegar rembingstímabilið kom fór ég algjört panik „hvern fjárann er ég búin að koma mér út í, föst í vatnslaug heima hjá mér og engin læknir til að klippa barnið út ef ég get þetta ekki“. Ég þurfti allan þann stuðning sem ég fékk frá manninum mínum og ljósmæðrunum sem stöppuðu í mig stálinu. Ég flakkaði á milli þess að hugsa „ég get þetta, ég get þetta, ég ætla og ég skal“ yfir í að vilja hætta við og bruna upp á spítala. Ég hafði beðið manninn minn um að hengja upp mynd af blómi sem var að opnast á spegilinn fyrir ofan sundlaugina sem ég einbeitti mér að því nota. Ég var að fara opnast eins og blóm, eins og Auður jógakennari hafði ítrekað á parakvöldinu. Ég var sannfærð um að því meira sem ég gæti einbeitt mér að þessari mynd þeim mun betur myndi útvíkkunin ganga. Þegar ég var að fara yfir um af sársauka mundi ég eftir síðasta jógatímanum sem ég hafði farið í þar sem lesin var fæðingarsaga eftir konu sem lét manninn sinn toga í hárið á sér í hríðunum. Ég hafði verið að gera það ósjálfrátt sjálf og bað nú manninn minn að toga af öllu afli í hárið á mér í næstu hríð. Það kom eitthvað svo fullkomið jafnvægi úr því að láta toga í hárið á sér á móti þrýstingnum sem ég fann að neðan. Eina verkjastillingin sem ég hafði annars var að láta setja kaldan þvottapoka á mjóbakið á mér í upphafi hríðar.
Svo byrjaði að glitta í kollinn og ég panikaði aftur og hugsaði „fokk, þetta barn kemst aldrei þarna út“ og sagði það upphátt og þegar ég öskraði „ég er að klofna“ eða „ái þetta svíður“ þá sagði Kristbjörg, já manstu „þetta er allt hluti af ferlinu og þetta þýðir að útvíkkunin er að klárast og barnið er að koma, nú þarftu að tala við barnið“. Það róaði mig og ég mundi eftir að við höfðum farið yfir þetta í undirbúningnum. Allt í einu skipti ég um gír og hætti að hugsa um hvað þetta væri vont og erfitt fyrir mig og fór að hugsa um elsku litla barnið mitt og hversu erfitt þetta væri nú fyrir hana. Ég fór inn á við og talaði við hana í huganum, bauð hana velkomna og sagði „jæja, nú gerum við þetta saman!“ ég reyndi að hlusta á líkamann og skipti um stellingar í hríðunum og nýtti hápunktinn á hríðunum til að remba. Eftir nokkra rembinga skaust hún út kl. 00:12. Ég var á hnjánum með hendurnar utan um manninn minn sem var á stofugólfuni á hjánum á móti mér, ég var nýbúin að kyssa hann innilega og örva geirvörturnar til að auka kraftinn í hríðinni og það virkaði. Ljósan tók á móti barninu og renndi því svo milli fóta mér og maðurinn minn tók hana upp úr. ÉG trúði ekki mínum eigin augum og sagði með tárin í augunum „ég fæddi barnið mitt!“ Ég tók hana í fangið og get ekki lýst gleðivímunni sem umlauk mig. Ég hafði í alvörunni fætt barnið mitt, fyrst kvenna í minni fjölskyldu þar sem öll börn eru tekin með keisara. Mér fannst ég svo stór og mikil kona, ég var orðin mamma.
Naflastrengurinn á lillunni hafði verið tvívafinn um hálsinn á henni þegar hún kom út þannig að hún fékk lélegan fyrsta apgar skor sem lagaðist strax nokkrum mínútum seinna þegar hún var farin að gráta af krafti. En út af þessum fyrsta apgar stungu ljósmæðurnar upp á því að fara með okkur upp á deild, bara til að fá það staðfest af barnalækni að allt væri í lagi. Það var pantaður sjúkrabíll og við lillan vorum vafðar inn í sæng og teppi og fórum í sjúkrabíl upp á deild. Þar fylgdi maðurinn minn lillunni á vökudeild í klukkutíma á meðan ég var saumuð með annarar gráðu rifu. Allt kom vel út úr skoðuninni og lillan var alltaf með 100% súrefnismettun. Við færðum okkur svo yfir á hreiðrið og kúrðum þar með snúllunni okkar þar til daginn eftir. Mér fannst mjög hentugt að fá að vera saumuð upp á deild og hafa sólahringsaðgang að ljósmæðrunum þar þegar kom að brjóstagjöfinni svo ég sá þetta sem blessun að hafa fengið það besta úr báðum heimum. Ég fékk að upplifa draumafæðinguna í rómantísku og yndislegu andrúmslofti heima hjá mér þar sem ég treysti á líkama minn, notaði jógaöndun, jógatónlist, og naut stuðning yndislegra ljósmæðra og míns ástkæra stuðningsríka maka, svo fengum við að njóta öryggisins sem heilbrigðiskerfið okkar hefur upp á að bjóða fyrir litlu fjölskylduna okkar. Ég hafði sagt ljósmæðrunum frá draumunum okkar á meðan ég svamlaði í fæðingarlauginni og eftir á sagði Kristbjörg að það hefði verið magnað að ég skyldi hafa fundið þetta á mér. Svona er lífið nú skrýtið stundum.
Nú sit ég með tárin í augunum að horfa á litlu lilluna okkar kúra í fanginu á pabba sínum á meðan ég skrifa þessa sögu og upplifi svo djúpstætt þakklæti til allra sem studdu okkur í þessu ferli. Takk fyrir mig elsku Auður og elsku jógakonur fyrir að búa til svona nærandi samfélag á meðgöngunni sem nýtist í undirbúningnum og öllu ferlinu.